18.1.2007 | 12:43
Það er til lausn
Ég hrökk við. Minningargreinar um 2 menn í Mogganum. Þetta hafði ég líka heyrt áður eða svipað, en ég taldi það áróður. Einu sinni heyrði ég mann segja á AA fundi að 13 vinir hans hefðu framið sjálfsvíg á síðast liðnu einu og hálfu ári. Ég trúði þessu ekki. Ég vissi samt að sjálfsvígstíðni og líkurnar á að verða fyrir slysi er miklu hærri hjá fólki í neyslu en hjá öðru fólki.
Ég áttaði mig jafnframt á því að ég var oft þunglyndur á mínu 10 ára edrútímabili á meðan ég hafði ekki unnið sporin, og þegar mér leið mjög illa var það einmitt það fyrsta sem mér datt í huga, að enda þetta allt bara. Þetta var mín geðveiki. Stundum var ég kominn nærri brúninni einkum í hjónabandinu með seinni konu minni, þega ég fór 4 sinnum af stað að heiman einmitt í þessum tilgangi að enda þetta bara. Ég held ég eigi að kenna um því, að ég var ekki að vinna í sporunum. Ég sat uppi með þetta andlega mein mitt sem ég fékk af neyslunni. Nú vona ég að ég losni við það og verði í raun eitthvað betri maður, og þess vegna vinn ég sporin af alúð og ég trúi því að þessi vinna muni gefa mér betra líf.
Meðan alkóhólistinn er í neyslu er áfengið lausn í lífi hans. Þá er átt við það að þessum mönnum líður dagfarslega mjög illa. Það er eitthvað í sambandi við framleiðslu á heilaboðefnum, Dópamíni og slíkum efnum sem alkóhólistar hafa of lítið af þegar þeir eru ekki að drekka. (Þeir eru víst búnir að ofnota það með drykkjunni eða neyslunni og nú framleiða þeir ekki nóg af þeim undir normal kringumstæðum) Þá er vellíðunartilfinning þeirra undir normalmarkinu og þeir þurfa að ná henni upp, og eina aðferðin sem þeir kunna, er að fá sér í glas. Þá gerist það að minnsta kosti tímabundið að það er framleitt meira af þessum boðefnum og þeir fá meiri vellíðunartilfinningu og fer þá að líða nokkurn vegin eins og normalt er. Þegar þeir eru langt gegnir sem alkóhólistar dugar þetta ekki lengur og þeim líður illa hvort sem þeir eru edrú eða fullir. Þá eru þeir í sjálfheldu.
Ef alkóhólistinn setur tappann í flöskuna, það er hættir að drekka, án þess að gera nokkuð annað þá vantar hann lausn. Honum líður illa eins og meðan hann drakk og hafði ekki áfengi. Þá framleiddi líkaminn of lítið Dópamín og gerir það áfram. Hvað gerir hann þá? Jú, hann finnur sér aðra lausn í staðinn fyrir áfengið. Hann sökkvir sér ofan í vinnu til dæmis og verður vinnualki, eða fær einhverja ástríðu sem hann helgar líf sitt gjörsamlega. Sumir taka trú og helga líf sit þjónustu við Guð, enn aðrir fá bíladellu og fara að kaupa sér nýja bíla og versla með bíla og hugas um bíla og gera við bíla og svo framvegis. Sumir sækja í spennu og spila í kössum eða halda framhjá eða stunda einhverja ólöglega starfsemi í laumi. Menn fá sem sé útrás í því og aukna vellíðan að helga sig einhverju viðfangsefni sem þeir geta verið vakandi og sofandi yfir svo nánast ekkert annað kemst að. Aftur eru það öfgar og ofnotkun sem eru ríkjandi þættir hvert sem viðfangsefnið er. Ég er einn af þessum og tek ástfóstri við eitthvað viððfangesefni og helga mig því svoleiðis að ég sef ekki einu sinni eða borða eðlilega á meðan það varir, en svo einhvern veginn þegar ég er búinn að ná tökum á því eða einhverri fullkomnumn, þá þarf ég annað viðfangsefni og ég leita að því og finn það og stekk á það og sama hringrásin byrjar aftur. Þannig hef ég átt margar lausnir frá mínum vanda þessi 10 ár sem ég hef verið edrú.
Einn kaflinní AA bókinni heitir einmitt Það er til lausn. Þá er verið að höfða til þess að það sé til raunveruleg lausn fyrir alkóhólistann sem ekki innifelur einhverja fíkn og ástríðu sem í raun er bara substitute fyrir áfengið. Lausnin sem bent er á andleg reynsla. Fæstum geðjast að því að þurfa að líta í eigin barm, þurfa að láta af hrokanum og játa eigin bresti en þess er krafist til þess að hægt sé að ná árangri samkvæmt þessari leið. Þessi andlega reynsla er sjaldnast eitthvað sem hellist yfir mann á augabragði og svo sé maður bara breyttur maður. Þetta gerist þvert á móti oftast með mikilli vinnu og einbeitingu. Þetta kann að virka sem hálfgert plat, en er það nú ekki. (Ég þorði ekki að fara þessa leið í langan tíma af því ég óttaðist að þetta væri bara hugarburður og óskhyggja) Menn eignast sinn Guð og snúa af braut eigingirni, sjálfselsku og óheiðarleika og fara að gefa af sér með þvi að hjálpa öðrum alkóhólistum í stað þess að hugsa alltaf bara um sjálfa sig.
Mig langar til að útskýra svolítið nánar hvað átt er við með andlegri reynslu. Margur kann að halda að þegar maður minnist á slíkt sé maður loksins orðinn alvarlega bilaður og kominn út í eitthvert trúarrugl. Það er ekki svo. Það er reyndar útskýrt í AA bókinni hvað andleg reynsla er, t.d. í viðauka bókarinnar. Þar segir að þessi andlega reynsla sé í raun sú persónuleikabreyting sem dugi til bata. Við það að öðlast þessa andlegu reynslu þá gerbreytast lífsviðhorf manna og menn átta sig á því að þessi breyting geti varla verið þeim einum að þakka. Það gerist á fáum mánuðum sem hefði tæplega áunnist með áralöngum sjálfsaga. Menn komast að raun um þeir hafi virkjað nýtt og óvænt afl innra með sér sem þeir kenna fljótlega við hugmyndir sýnar um mátt öflugri þeirra eigin.
AA-bókin: Flest okkar álíta að þessi vitund um mátt öflugri okkar eigin sé mergur andlegrar reynslu. Þau okkar sem eru trúuð kalla þessa andlegu reynslu vitundarsamband við Guð.
Við leggjum höfuðáherslu á að hver einasti alkóhólisti sem getur tekið heiðarlega á vanda sínum með reynslu okkar að leiðarljósi geti náð bata svo fremi að hann útiloki ekki andlegu hliðina. Það eina sem getur orðið honum að falli er óbilgirni eða áköf afneitun.
Fúsleiki, heiðarleiki og opinn hugur eru undirstaða batans. En það eru líka ómissandi þættir.
Þessi lausn er ekki skaðleg og er ekki gerfilausn eins og hinar lausnirnar sem alkóhólistinn velur. Líklega er það svo að þessi mjúka lausn, þar sem menn fá bænina, sem eykur vellíðan, og menn fá að hjálpa öðrum á óeigingjarnan hátt, sem líka eykur vellíðan, og menn fá ástæðu til þess að sýna af sér kærleik og umburðalyndi, sem enn eykur vellíðan, sé einmitt þannig að það framleiðist meira af þessum góðu boðefnum í heilanum og mönnum líði þess vegna einfaldlega betur. Þetta er þó bara mín skýring, en mér finnst hún aðlaðandi. Þessi lausn er einmitt kjarni AA. Um hana snýst allt AA starfið. Til þess að öðlast lausnina vinna menn sporin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2007 | 22:58
Fallegt lag sem ég má til með að deila með öðrum
Söngvarinn heitir Hayley Westenra og lagið heitir Pokarekare-Ana. Að mínum dómi er þetta eitt fallegsta lag sem ég heyrt. Ekki veit ég hvað heitið merkir en í mínum augum er þetta jólalag og ég spila það gjarnan þá. Lagið er róandi og gott.
Smellið á myndbandið hér til hægri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2007 | 19:28
Mesta gremja sem ég hef heyrt um.
Hún fjallar um ættingja sem nú er dáinn fyrir þó nokkrum árum. Hann átti mörg börn og drakk mikið og lengi. Að lokum gafst konan hans upp á honum og lét hann velja milli sín og flöskunnar. Hann valdi flöskuna eins og alkóhólista er háttur. Hann bjó svo í hálfgerði einangrun á drykkjumannahæli í mörg ár áður en hann dó forsmáður og fyrirlitinn og alltaf að stelast á fyllerí þótt hann þyldi það ekki og honum væri það harðbannað.
Þegar hann dó var hann grafinn eins og venja er og var grafinn í reit við hlið sonar síns sem hafði dáið 11 eða 12 ára vegna hjartagalla mörgum árum áður. Konan hafði látið taka frá þetta pláss þegar sonurinn dó vitandi að einhvern tíma yrði þörf fyrir það. Þessi náungi var af sumum virtur og þá sem skáld og fræðimaður og það voru ýmsir merkismenn sem komu til að kveðja hann vegna þess konar kynna, en lítil eftirsjá virtist vera nánustu ættingja.
Mörgum árum eftir að hann var grafinn vaknar eiginkonan upp við það að hún eigi eftir að liggja við hlið hans þegar hún deyr. Það var henni óbærileg hugsun og hún krafðist þess að maðurinn fyrrverandi yrði grafinn upp og fluttur á annan stað. Það undarlega gerðist að hún fékk það í gegn með málsókn, því hún taldist hafa borgað fyrir reitinn á sínum tíma. Hún hafði haldið utan um heimili þeirra hjóna, ekki hann.
Þetta er versta dæmið sem ég hef heyrt um gremju sem ekki hjaðnar þótt ástæðan fyrir gremjunni sé farin fyrir löngu síðan.
Gremja konunnar út í manninn sinn sem hún hafði einu sinni elskað og alið með 11 börn hafði bara vaxið með árunum, því hún hafði jú leyft að hann yrði grafinn þarna á sínum tíma.
Hún var þó fyrir löngu búin að losa sig við manninn og hún hafði ekki einu sinni séð hann síðan, en gat samt ekki hugsað sér að hann hvíldi bein sín í sama reit og hún og barnið þeirra. Þarna er í raun konan að sýna eigingirni og sjálfselsku af ekki betri tegund en alkóhólistinn, enda er það staðreynd að aðstandendur eru ekki minna veikir en alkóhólistar. Það fær maður svo sannarlega að heyra á Al-anon fundum.
Ef ég væri enn í sama gír og ég var þegar ég var í neyslu hefði ég fyrirlitið konuna fyrir þetta athæfi og aldrei viljað heyra hana eða sjá meira, en nú bara vorkenni ég henni að líða svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2007 | 16:26
Óbein neysla áfengis. Hvað er það?
Óbeina neyslu áfengis má skilgreina á svipaðan hátt. Það er þá óbein neysla áfengis þegar menn þvingast til að vera samvistum við einhvern sem er að drekka áfengi að staðaldri. Einkum ef þær samvistir eru til langs tíma, eins og til dæmis í hjónabandi, eða um börn innan fjölskyldu er að ræða, þar sem drukkið er, eða þá á vinnustað þar sem menn eru jú meira samvistum við þann sem er að drekka en jafnvel fjölskyldan heima.
Ef samlíkingin við óbeinar reykingar á að ganga upp þarf óbein neysla áfengis að vera jafn skaðleg á sinn hátt fyrir þann sem ekki neytir áfengis og óbeinar reykingar eru fyrir þann sem ekki notar tóbak, en það er hún einmitt, eins og nú skal nánar útskýrt.
Sá sem er, eða þvingast til, að vera samvistum við annan sem að staðaldri neytir áfengis kallast aðstandandi. Að vera aðstandandi (codependent) getur gert menn mjög veika. Um þetta má lesa í lærðum ritum. (sjá t..d. Codependent no more eftir Melody Beattie eða Facing Codepence eftir Pia Mellody)
Að verða meðvirkur er sá sjúkdómur sem aðstandendur fá. Hann breytir lífi og persónuleika þess sem fyrir honum verður. Sjúkdómur aðstandenda er meðferðarhæfur, það er, menn eru sendir í meðferð við þessum sjúkdómi á meðferðarstofnum rétt eins og drykkjumenn. Sjúkdómur aðstandenda er að því leiti verri en sjúkdómur drykkjumannanna sjálfra að honum fylgir sterkari afneitun og það verður því erfiðara fyrir aðstandandann að sjá að það sé nokkuð að hjá honum.
Hér á landi hefur um nokkuð langt skeið verið stundaður skefjalaus áróður gegn óbeinum reykingum, og mönnum hefur einnig verið hjálpað til að hætta að reykja í meira mæli og á mun áhrifameiri hátt en áður, og er það bara góðra gjalda vert. Hins vegar hefur á sama tíma almennt aðgengi fólks að áfengi í landinu verið aukið og bætt. Útsölustöðum hefur fjölgað og fjölgar enn, og opnunartími þeirra hefur verið lengdur, börum og veitingahúsum hefur fjölgað og opnunartími þeirra hefur líka verið lengdur mikið, meira að segja er lagt til af 18 þingmönnum að aldurstakmörk til kaupa á áfengi verði færð til til hagsbóta fyrir neytandann. Niðurstaðan? Jú, áfengisneysla hefur aukist um 50% á 15 árum á sama tíma og neysla tóbaks hefur minnkað um 20%. Maður gat sagt sér sjálfur að svo hlyti að fara.
Umræðan í landinu er andsnúin tóbaki en hliðholl áfengi. Það er fínt að fá sér í tána eða að kaupa sér söngvatn eða jafnvel að fara á barinn og fá sér í glas. Menn tala um guðaveigar og það er fínt að hafa lítinn bar heima hjá sér, eða eiga nokkra flöskur í glerskáp inni í stofunni, ef það skyldu koma gestir. Það er ekki lengur fínt að fá sér smók eða að bjóða sígarettur og vindla frítt fyrir gesti í veislum eins og áður tíðkaðist.
ÁTVR heitir nú Vínbúðin. Tóbak er ekki nefnt í titlinum, þótt sala þess sé stór hluti af rekstrartekjunum. Bæklingur er gefinn út af Vínbúðinni um þær víntegundir sem hún selur en enginn bæklingur um tóbak. Tóbak má ekki sjást í hillum verslana og ekki heldur á börum og veitingahúsum, en bjór og vín má sjást að vild á veitingahúsum og börum.
Sá sem talar illa um áfengi og neyslu þess er álitinn vera haldinn ofstæki, en ef hann talar illa um tóbak eða neyslu þess eru menn honum sammála. Tóbak er ógeðslegt, sóðalegt og stórhættulegt þeim sem reykir og hinum sem umgangast reykingamanninn. Áfengi er gott í hófi og gleður mannsins hjarta. Áfengi er líka bragðgott og því upplagt að fá sér smávegis vín með mat og líka til að bjóða makanum með sér á rómantískri rökkurstund við kertaljós. - Nóg er af tilefnunum.
Samkvæmt Þórarni Tyrfingssyni yfirlækni á Vogi er áfengi skaðlegasta og sterkasta eiturlyfið sem til er. Það er skaðlegra en öll hin, hass, kókaín, amphetamín og hvað þau nú heita. Það virkar á svo marga þætti í líkama og sál og niðurbrotsáhrif þess eru töluvert meiri en annarra eiturlyfja. Það virkar líka á kynlífið eins og reyndar tóbak, og kynlíf drykkjumanna er oft hrein hörmung. Samt er það löglegt eiturlyf og fíkniefni.
Fíknin í áfengi er ekki sterk hins vegar og hinn líkamlega sókn í þetta fíkniefni er tiltölulega fljót að hverfa.
Tóbak er líka mjög skaðlegt fyrir líkamann. Fíknin í tóbak er afar sterk og sambærileg við fíkn í kókaín ef menn neyta þess.
Í samantekt má segja að það er sé erfitt fyrir menn að hætta að reykja, en ekki eins erfitt að hætta að drekka. Tóbak er mjög skaðlegt og drepur menn oft á 20 -30 árum. Óbeinar reykingar eru líka skaðlegar og geta valdið sjúkdómum og dauða hjá þeim sem fyrir þeim verða í langan tíma á sama hátt og hjá þeim sem reykja.
Áfengi er skaðlegt eiturlyf, sem brýtur menn niður bæði andlega, líkamlega og félagslega. Það breytir persónuleikanum og deyfir siðferðisvitundina. Dropinn holar bergið, svo lítil áfengisneysla veldur litlum skaða en meiri áfengisneysla veldur meiri skaða. Það tekur mislangan tíma fyrir áfengið að vinna á þeim sem neytir þess í óhófi, kannski ekki meira en 3 ár og kannski líka 30 ár, það fer eftir einstaklingnum og aðstæðum. Það er líka mjög erfitt að segja hvenær áfengis er neytt í hófi og hvenær óhófið tekur við. Oft eykst neyslan með aldrinum og lokastig ofneyslu áfengis er jafnan dauði eða vist á geðsjúkrahúsi eða í fangelsi.
Þeir sem eru langtímum saman samvistum við drykkjumenn eru nefndir aðstandendur og þeir verða líka sjúkir. Sjúkdómur þeirra er ekki eins viðurkenndur af kerfinu og sjúkdómur drykkjumanna, þótt hann sé alveg jafn raunverulegur. Oft verða aðstandendur mjög alvarlega sjúkir. Neyslan breytir persónuleika þeirra og allt sem heitir heilbrigt líferni og heilbrigð skynsemi fer úr skorðum. Drykkjumaðurinn fer í gegnum líf þess eins og hvirfilvinur og umturnar öllu sem fyrir verður.
Áfengið er fjölskyldueitur og þegar einhver á heimilinu neytir þess í einhverju óhófi fara vandamálin strax að segja til sín. Það þykir sjálfsagt að merkja sígarettupakka og annað tóbak með stórum borðum með áletrunum eins og Tóbak drepur eða Neysla tóbaks er mjög skaðleg fyrir hjarta og æðakerfið en það dettur engum í hug að merkja vínflöskur með áletrum eins og Fjölskyldueitur eða Óhófleg víndrykkja gerir þig að skítakarakter Þó er áfengisneysla einmitt mun hættulegri en tóbaksneysla og full ástæða til að vara við henni.
Á meðferðarstöðvum er eðlilega lögð áhersla á að fá drykkjumennina til að hætta að nota áfengi. Þeim var að minnsta kosti til skamms tíma sagt að þeir gætu tekið á reykingum sínum seinna, eftir 2 ár eða svo ef þeir vildu. Tóbaksneyslan er sem sé ekki að drepa þá. Ef drykkjumaður er spurður hvort honum finnist áfengi eða tóbak hættulegra eiturlyf er svarið alltaf að áfengið sé mun hættulegra. - Hann ætti að vita það.
Þeir sem verða fyrir óbeinni áfengisneyslu, aðstandendur, geta fengið nokkra bót meina sinna með því að fara í Al-Anon eða Samtök aðstandenda þar sem nafnleynd ríkir. Samtökin byggja upp á sama sporakerfi og AA samtökin og aðstandendur fara í gegnum sömu vinnu og alkóhólistar eða drykkjumenn. Aðstandendur fá að sjá í Al-Anon hvernig hegðunarmunstur þeirra hefur breyst vegna samvistanna við drykkjumanninn og líf þeirra hefur tekið stakkaskiptum til hins verra. Því miður sjá samt margir aðstandendur aldrei að það sé neitt að hjá þeim og fara því áfram í gegnum lífið kolruglaðir og fársjúkir. Þeir fá engan bata með því einungis að hætta að umgangast alkóhólistann sinn, það verður meira að koma til, þeir þurfa að vinna í þessum persónuleikabreytingum sínum. Oft enda þeir sem ná góðum bata í gegnum Al-Anon með því að finna út þetta: Ef eitthvað er þá held ég bara að ég hafi verið sjúkari en alkóhólistinn minn.
Niðurstaðan? Jú, óbein áfengisneysla er stórhættuleg og ekki minni ástæða til að vara við henni en óbeinum reykingum. Enginn ætti að leggja líf sitt og framtíðarhamingju í hættu með því að umgangast drykkjumann um lengri tíma, til dæmis inni á heimili eða á vinnustað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 13:13
Að búa með alkóhólista
Í AA bókinni stendur þetta um hegðun alkóhólista.
Alkóhólistinn er eins og hvirfilbylur sem ryðst með látum inn í líf annarra. Hann skilur eftir hjörtu í sárum, slítur vináttubönd og drepur hlýjar tilfinningar. Eigingirni hans og tillitsleysi hafa valdið upplausn á heimilinu. Okkur finnst sá tala gáleysislega sem segir að það sé nóg að vera bara ódrukkinn. Það má líkja honum við bóndann sem kom upp úr neðanjarðarbyrginu eftir fellibylinn og sá að heimilið var í rúst. Hann sneri sér að konu sinni og sagði: Ég sé ekki betur en hér sé allt í góðu lagi, gæskan. Finnst þér ekki gott að stormurinn skuli vera genginn niður?
Um daginn fann ég svo þessa átakanlegu reynslusögu á netinu og þýddi. Hún er dæmigerð fyrir þau áhrif sem alkóhólismi á heimili hefur á fjölskyldulíf venjulegs fólks.
Elsku Pabbi
Ég veit að þú ert reiður af því að ég fór frá þér án þess að kveðja. Ég áleit það vera besta ráðið því ég var of hrædd til við þig til að tala um það við þig. Ég var hrædd um að ég myndi setja þig úr jafnvægi. Ég hef verið hrædd við þig allt mitt líf. Ég hélt að það að búa hjá þér í sumar yrði mér til góðs. Ég myndi geta lifað lífinu á minn hátt hjá þér úti í ferska hreina loftinu, séð þig svolítið og náð að vera svolítið með sjúpsystur minni og kærastanum mínum.
Ég viðurkenni að það var erfitt að búa með mömmu því hún er alger taugahrúga og stundum verður hún reið af því henni finnst ég vera of mikið með kærastanum mínum. Þess vegna einmitt hélt ég að það væri góður kostur fyrir mig að búa um tíma hjá þér. Því miður var það ekki rétt ákvörðun og mér þykir það leitt. Í fyrstu gekk allt mjög vel, en svo sá ég hvernig þú komst fram við fólk og hvernig þú varst í mannlegum samskiptum.
Þú virðist ekki bera neina virðingu fyrir fólki, að minnsta kosti ekki fyrir stjúpmömmu minni og sjúpsystur. Þú barst heldur enga virðingu fyrir mömmu minni. Og þú undrast hvers vegna fólk er hrætt við þig og verður reitt út í þig og hatar þig. Það er vegna þess að þú átt mjög erfitt og líf og þér líður illa og þú þarft að taka það út á öðrum. Þú ert árásargjarn og olbogar þig áfram í lífinu og þegar þú talar við fólk þarftu helst að öskra og æpa á það í óvinsamlegum tón. Ég dró koddann upp fyrir haus þegar ég heyrði þig þramma um húsið þótt þú værir í hinum enda hússins. Ég var á nálum um það hvað hafði gert þig reiðan núna. Var það maturinn eða kettirnir eða vinnan þín. Það var alltaf eitthvað.
Ég heyrði þig heimta alla skapaða hluti af konunni þinni. Þú sagðir næstum aldrei viltu gjöra svo vel. Og tónnin sem þú notaðir var ekki beinlínis eins og þú elskaðir hana. Það var fremur að heyra að þarna færi bitur maður, bitur harðstjóri. Þú skipaðir líka stjúpdóttur þinni fram og aftur og enn sagðir þú aldrei viltu gjöra svo vel. Nei ekki aldeilis. Mér fannst þú kæmir betur fram við mig, þótt þær væru líka fjölskaylda þín eins og ég. Ég grét þegar ég heyrði þig kalla stjúpsyrstur mína kuntu og pussu og grét þegar ég heyrði þig æpa á stjúpmömmu mína. Það særði mig þegar þú varst dónalegur við þær og gerðir til þeirra óréttmætar kröfur.
Enginn er fullkomin og stjúpsystir mín er með ör á öxlinni og mér er fortvitni á að vita eftir hvað það er. Hvers vegna langar hana til að flytjast að heiman eða fara í heimavistarskóla? Hvers vegna fer alltaf sínkt og heilagt heim til ömmu sinnar? Hvers vegna er mamma hennar sífellt í vörn fyrir hana? Hún er ung, hún er bara barn og hún á ekki skilið það sem þú gerir henni. Veistu hvers konar skaða þú ert að valda henni. Hún þarfnast föður sem hún getur litið upp til, ekki föður sem hún þarf að óttast. Hún er hrædd við þig. Hún er full af reiði. Ég óttast um hana. Ég reyni mitt besta til að vera til staðar fyrir hana. Hún reynir eins og hún getur að standa með sjálfri sér og standa upp á hárinu á þér og mótmæla meðferðinni á sér af því að það er eina vörnin sem hún hefur.
Í öll þessi ár hef ég haldið mér saman yfir því hvernig ég sá þig meiða mömmu þegar ég var enn mjög lítil. Yfir því hvernig þú barðir hana og kallaðir hana öllum illum nöfnum. Hvernig þú sveikst hana og hélst fram hjá henni og hvernig þú valtaðir yfir hana á allan háttt. Ég hef þagað því ég var ekki nógu sterk til að segja þér að hætta og hyggja að því hvað þú værir að gera. Þú heldur að ég muni ekkert, en ég man. Ég hugsa oft um þetta Þegar ég sé mömmu þá ég aðeins hylkið utan af þessari yndislegu konu sem einu sinni var. Ég undrast hvað hafi orðið um hana. Hvað varð um vonir hennar og drauma?
Ég ásaka þig fyrir það hvernig mamma er orðin núna. Þú bókstaflega drakkst úr henni allan lífssafa. Ég held henni sé loksins hætt að þykja vænt um þig núna. Hún elskaði þig ákaflega mikið og vildi allt fyrir þig gera en þú eyðilagðir hana. Hve oft leið henni ekki illa út af mistökum þínum lygum og reiði.
Ég get ekki hatað þig af því þú ert faðir minn. Ég get ekki breytt þér. Ég þurfti að fá mikla hjálp til að skilja að ég gæti ekki breytt þér eða mömmu og ekki jafnvel óskað þess að ég gæti það. Það meiddi mig að tala um hið liðna. En hvað gat ég gert, látið það halda áfram að naga mig að innan? Naga úr mér sálina og hjartað. Þú skalt ekki reyna að leggja mér orð í munn eða að framkalla einhverja sektartilfinningu hjá mér Ég er búin að fá nóg af því öllu saman. Ég get ekki þagað lengur. Þú meiddir mig og nú er kominn tími til að þú finnir hvernig mér leið.
Þú getur svo sem haldið áfram að drekka þinn bjór og gráta tárum sem sem aðeins virðast koma þegar þú ert undir áhrifum. Það er í lagi mín vegna. Þú hefur kennt mér að drekka ekki vín. Ég vil alls ekki verða háð víni eins og þú ert. Þú hefur kennt mér ýmislegt, til dæmis að vera aldrei með strák sem drekkur eða beitir líkamlegu ofbeldi. Þú hefur líka kennt mér að reykja ekki.
Ég hef mínar góðu minnignar líka, pabbi. En ég man ósköp lítið frá því ég var barn. Mér er spurn hve mikið af þeim minningum ég hef blokkerað út vegna þess að þær voru svo óþægilegar. Allt og sumt sem ég get munað stundum eru leiðinlegu og óþægilegu atvikin í lífi mínu. Ég man eftir sleðaferðum og ég man eftir ferðum út í búð til að kaupa ís, en ég man líka þig vera ða hóta að drepa mömmu og og svo man ég þig taka hana kverkataki daginn eftir. Þú ruglaðir mig alveg í ríminu. Ég leit upp til þín af því þú varst pabbi minn en samt undraðist ég oft hvers vegna þú hegðaðir þér eins og þú gerðir.
Ég reyndi að fá bróður minn til að halda uppi sambandi við þig. En ég gafst upp á því. Hann var allt of hræddur við þig. Hann kunni ekki að eiga samskipti við þig því hann er mjög viðkvæm sál. En stundum var hann samt mjög reiður. Hann leitaði sér aldrei hjálpar eins og ég í staðinn lenti hann snemma í vandmálum og óreglu og var svo settur í fangelsi. Það tók mig mjög sárt að sjá hvernig fór fyrir honum en ég gat ekkert get. Hann hafði ungur byrjað að drekka og jafnvel nota eiturlyf. Hann hafði samt lofað, og við höfðum lofað reyndar þegar við vorum yngri að nota aldrei vín svo við yrðum ekki eins og þú. Ég er sú eina í fjölskydlunni sem hef haldið það loforð og það hryggir mig.
Ég reyndi alltaf að vera þér trú og trygg dóttir. Sú sem alltaf elskaði þig og vildi heimsækja þig einu sinni í viku á leiðinn í skólann. Mig langaði til að gefa þér séns og vera hjá þér núna í sumar en nú held ég að það verði ekkert úr því. Ég veit, að ef þú hefur lesið þetta bréf mitt alla leið hingað að þú ert sennilega núna bæði sár og reiður út í mig. En ég skal segja þér nokkuð. Verði þér bara að góðu þú átt það skilið. Lífið hefur aldrei verið þér auðvelt, en kannski er kominn tími til að þú hugsir um hverju þú getur breytt. Hvað getur þú gert fyrir sjálfan þig. Ég gat gert breytingar á lífi mínu þegar mér leið sem verst. Ég fékk hjálp og ég forðaðist allt sem hét alkóhól og eiturlyf og það virkaði. Ég er allavega enn á floti. Ég verð enn stundum reið og hrygg og þunglynd, en fjölskylda mín óttast mig þó ekki eða fer í felur og forðast mig.
Ég hef beðið lengi eftir að öðlast kjark til að segja þér þetta allt, heil 20 ár, og nú hef ég gert það. Það er af miklu meira að taka, atburðum sem ég man og gæti sagt þér frá, en ég held að þetta dugi til þess að þú skiljir. Ég vona að þetta bréf muni fá þig til að hugsa ofurlítið og ég veit að það mun setja þig úr jafvægi. Það mun tæplega breyta þér mikið en samt nærðu vonandi að skilja. Ef þú hefur lesið bréfið svona langt þá er ég stolt af þér. Kannski hef ég samband við þig seinna.
Þín dóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 07:51
Hvað gerir AA sporavinnan fyrir mig?
Loks þegar mér var farið að líða nógu illa vegna þess að ég fann að það var um það bil að slitna upp úr fjölskyldutengslum hjá mér, dóttir mín var orðin andsnúin mér, fann ég mér enn einu sinni trúnaðarmann og ég var nu ákveðinn í að gleypa það sem þyrfti til að geta farið í gegnum sporin 12 því ég var búinn að sjá að það gerði fólki gott. Ég var sem sé búinn að sjá þess mýmörg dæmi að menn urðu að minnsta kosti upplitsdjarfir og kátir, viðmótsþýðir og frjálslegir og þeim virtist líða vel sem höfðu farið þessa leið. Mig langaði líka í þessa líðan.
Trúnaðarmaðurinn minn eða sponsorinn, eins og hann er kallaður, var náungi sem var helmingi yngri en ég, og hafði á um það bil einu ári breyst úr andlegu flaki sem hafði misst kærustuna sína vegna framkomu sinnar við hana og enginn vildi lengur samsama sig við og sem átti enga vini og menn forðuðust, sem sé breyst í upplitsdjarfan og traustvekjandi einstakling sem allir báru virðingu fyrir og vildu vera með og tala við. Ekki er það lítil breyting fyrir einn einstakling á jafnskömmum tíma! Og eru þetta þó engar ýkjur. Þetta fannst mér vera rétti maðurinn fyrir mig. Svona árangri vildi ég ná.
Ég bað þennan náunga um að hjálpa mér í gegnum sporin og það var auðsótt mál. Eg er ekki bara að gera þetta fyrir þig, ég þarf á þessu að halda líka, það hjálpar mér sagði hann. Ég var svolítið tregur til að láta þennan gæja stjórna mér og lagði fjöldann allan af hvössum spurningum fyrir hann. Ég var eins og enn svolítið hræddur um að þessi vinna væri eitthvert fake eftir allt saman. Einhver sjálfsblekking og ímyndun. Ég vildi tryggja mér að svo væri ekki. Mér hafði oft fundist menn ganga of langt þegar þeir fóru í þessa sporavinnu og falla eins og í trans og klifa eftir það bara á Guði og sporunumm, og að allir sem ekki voru sammála þeim væru vondir og burtrækir eða bjánar sem ekki vissu hvað þeir væru að gera. Ekkert umburðarlyndi eða auðmýkt. Ég vildi ekki taka þátt í svoleiðis. Þeir komu fram eins og ofstækismenn í trúmálum í mínum augum. Trúnaðarmaðurinn minn hafði ekki komið þannig fram . Hann var mátulega hófsamur fyrir mig. Tranaði sér aldrei fram eða reyndi að þröngva upp á mig eða aðra sínum skoðunum. Það líkaði mér.
Ég spurði hann í upphafi okkar srtarfs þessar einföldu og þó yfirgripsmiklu spurningar. Hvað telur þú að maður fái út úr því að vinna sporin? Það stóð ekki á svarinu. Meðan maður er að ennþá að drekka þá hefur maður bara eina lausn ef manni fer að líða illa, það er að fá sér í glas. Það er lausn fyrir mann sem er í neyslu og gefur honum tímabundna betri líðan. Ef maður hættir að drekka og fer ekki að vinna sporin þá vantar mann einhverja lausn þegar manni líður illa, og maður finnur þá eitthvað annað sem veitir manni friðþægingu í sálinni. Sumir hnýta flugur aðrir sökkva sér ofan í tölvuna og enn aðrir borða bara meira. Þegar alkóhólista líður illa og hann hefur enga lausn sér hann bara tvær leiðir út úr vandanum, að fara að drekka eða að drepa sig. Alkóhólistinn verður því alltaf að hafa lausn fyrir sig annars getur farið illa. Lausnir eins og að hnýta flugur, vesenast í tölvunni eða borða eru samt bara gervilausnir og laga ekkert hans vandamál þótt honum líði aðeins betur tímabundið svona eins og þegar hann fékk sér í glas áður. Hann er ekkert að vinna í skapgerðarbrestunum sínum og persónuleikabreytingunum sem hafa þó komið honum þangað sem hann er staddur. Þeir halda áfram að grassera á fullu og gera honum skaða, það er að segja geðveikin heldur áfram. Menn gera satt að segja oft miklu verri skissur og geðveikislega hluti ódrukknir með margra ára edrúmennsku að baki en þeir gerðu nokkurn tíma meðan þeir voru enn í neyslu, ef þeir hafa ekki unnið neitt á þessum andlega meinum sínum með því að fara í gegnum sporin. Það sem maður fær út úr því að vinna sporin er að maður vinnur á þessum brestum sínum eða persónuleikabreytingum eftir föngum og maður fær nýja lausn inn í líf sitt. Þú getur getið upp á því hver hún er Ég vissi að hann meinti Guð. Ég var tilbúinn til að taka við fyrri partinum af skýringunni en ekki þessu með Guð, en hann sagði að það gerði ekkert til við þyrftum ekki á því að halda núna.
Svo sagði hann. Vandamál alkóhólistans eru þrenns konar: Hann er með líkamlegt ofnæmi. Þetta er ofnæmi fyrir áfengi, því alkóhólistinn sýnir ofnæmisviðbrögð. Ef hann lætur áfengi inn fyrir sínar varir veit hann ekki hvort eða hvenær hann getur hætt. Hann hefur enga stjórn á þessum viðbrögðum, svona rétt eins og maður sem er með ofnæmi fyrir kattarhári fær óstöðvandi kláða og útbrot og köfnunartilfinningu svo lengi sem hann er í snertingu við kattarhár. Hmm.. Segi ég. Ég hef nú ekki þetta vandamál. Það er svo langt síðan ég drakk síðast eða 10 ár svo öll löngun í áféngi er löngu horfin og þess vegna lendi ég aldrei í því að ýfa upp svona ofnæmi ef það er þá fyrir hendi. Það er alveg sama,segir hann þú þarft að horfa til baka og muna að ef þú lendir einhverntíma aftur í þeirri stöðu að fara aftur að drekka þá er það einmitt þetta ofnæmi sem olli því að þú drakkst alltaf meira og lengur en margir aðrir. Er það ekki?
Vandmál alkóhólistans númer tvö er svo huglæga þráhyggjan,heldur hann áfram. Þegar þú varst ekki að drekka hérna áður fyrr, að minnsta kosti, þá átti Baccus alltaf til með að snúa upp á huga þinn og telja þér trú um að þetta hafi nú ekki verið svo slæmt síðast þegar þú drakkst, þú gleymir því auðveldlaga á fimmtudegi sem stóð þér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum á mánudegi, og þú kemur aftur við í ríkinu á leiðinni heim. Þá var kannski þessi spegill sem þú braust heima hjá þér þegar þú komst heim dauðadrukkinn um miðja nótt og rifrildið við konuna og hótanir hennar um að fara frá þér ef þú héldir svona áfram ekkert svo alvarlegt mál. Af hverju er líka alltaf þessi gauragangur í kerlingunni þó maður fái sér aðeins í glas. Já, en ég er með svo langa edrúmennsku að baki að ég þarf ekkert að vera að hafa áhyggjur af þessu, segi ég, ég lendi ekkert í því að búa mér til svona glansmyndir af drykkjunni lengur og í mér er engin fíkn í áfengi heldur. Mig hefur ekki langað í áfengi eða dreymt um áfengi í mörg herrans ár. Þú þarft nú samt að spóla pínulítið til baka í huganum segir hann og muna að það var einmitt svona sem þetta gerðist að þú fórst alltaf að drekka aftur og aftur, hversu oft og innilega sem þú lofaðir sjálfum þér og öðrum að hætta.
Þessi tvö vandamál eru þá bara ekki virk í þér núna, en þú hefur ekkert læknast af þeim. Athugaðu það!
Þriðja vandamál alkóhólistans og það sem ekki lagast með tímanum af sjálfu sér eru svo þessi andlegu mein sem þú hefur hlotið af drykkjunni. Þú ert vísast skapstyggur, ófullnægður og eirðarlaus og reyndar margt fleira. Áfengið hefur smám saman breytt persónuleika þínum og skapgerð. Þú þarft að vinna að því skipulega að breyta þér til baka eftir föngum. Til þess hefurðu sporin. Þar tekurðu á þessum brestum þínum og losar þig við þá. Er það ekki góð tilhugsun og eitthvað að keppa að?
Ég spurði enn. Þú sagðir í upphafi að við þyrftum að lesa sama AA bókina. Hvers vegna þurfum við þess annars? Við þurfum að lesa hana saman til þess að tengja okkur betur við efnið. Þú þarft að merkja við allt sem þú tengir þig við og spyrja um leið spurninga ef þú skilur ekki eitthvað. Þú átt eftir að sjá að þú sérð ýmilslegt nýtt út úr efninu í bókinni jafnvel þótt þú hafir lesið bókin hundrað sinnum áður. Það er líka vert að geta þess að menn geta ekki unnið sporin einir. Þeir þurfa alltaf hálp. All vega gerir það málið mun viðráðanlegra.og líklegra til árangurs.
Við lásum síðan saman fyrsta annan og þriðja kafla AA bókarinnar sem fjallar um fyrsta sporið eingöngu en það hljóðar svo:
1. Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna lífi okkar.
Mér tókst að sjá í þessum köflum hvað ég hafði verið vanmáttugur gegn áfengi og að ég myndi vísast ekkert frekar geta stjórnað drykkjunni núna. Mér tókst líka að sjá hve litla stjórn ég hafði á lífi mínu jafnvel þótt ég væri búinn að vera svon lengi án áfengis.
Þegar ég fann Guð
Það sem lengst af hindraði mig í því að fara að vinna sporin af einhverri alvöru var að ég gat ekki hugsað mér að fara að biðja til Guðs. Ég var ekki trúaður og ég áleit það að biðja til Guðs vera veikleikamerki í raun.
Eina sambandið sem ég hafði haft við æðri mátt frá því ég var 11 ára hafði ég þegar ég var inni á Vogi 1995 þá gersamlega í molum andlega og félagslega því fjölskyldan hafði snúið baki við mér. Þá fór ég eitt kvöldið inn í Kapelluna sem þar var og settist í stól fyrir framan mynd af Jesú og spennti greipar með semingi og bað um styrk. Ég hugleiddi líka í leiðinni hvað ég var að gera. Þetta var ekki minn stíll að gera svona, en ég var yfirkominn af harmi og eymd og vorkenndi sjálfum mér heil sósköp. Ég fann samt strax að bara þetta litla atriði að hafa getað brotið odd af oflæti mínu og beðist fyrir gaf mér aukinn styrk. Ég stóð síðan upp eftir nokkra stund og hugsaði með mér. Það er gott að vita þetta, ég get þá alltaf leiðað í þetta skjól að biðjast fyrir ef mér skyldi fara að líða mjög illa. Eftir þetta kvöld baðst ég ekki fyrir í heil 10 ár.
Það var svo árið 2005, þegar var staddur úti í Amsterdam hjá dóttur minni að ég var eitt sinn að fara ofan í bæ og ætlaði með Sporvagninum. Þegar ég kom að stoppistöðinni var þar einn maður fyrir. Ég ávarpaði hann og spurði hvort strætó væri ef til vill nýfarinn. Nei, hann hélt hann væri rétt ókominn og svo fórum við saman og skoðuðum tímatöfluna sem var þarna á stöðinni. Niðurstana var að það væri 7 mínútur í næsta strætó. Við sammæltums um að það væri alveg viðráðanlegt. Síðan fórum við bara að spjalla um allt mögulegt.
Náunginn var með austurlenskt útlit, það kom í ljós síðar í samtalinu að foreldrar hans voru fæddir í Hong Kong, og hann varr bara hinn skrafhreyfnasti. Ég er líklega alltaf frekar fámáll, svolítill durtur, en samt tókst okkur ágætlega að tala saman. Þegar við vorum komnir upp í vagninn settist hann fyrstur og benti mér síðan að setjast hjá sér og við héldum áfram spjallinu.
Nú kom hann því að hvert hann væri að fara. Hann var á leiðinni í kirkju. Hann var Kaþólskur og var að fara til messu niðri í bæ sem hófst kl 6. Hann sagðist alltaf fara í kirkju á sunnudögum og oftar ef hann kæmi því við. Hann sagðist leggja rækt við sína trú eftir föngum. Síðan spurði hann mig hvort ég færi í kirkju. Nei ekki mikið sagði ég, helst á jólunum eða svo. Varla meira. Honum fannst það nú greinilega ekki nógu gott, þótt hann gagnrýndi það ekki. Síðan spurði hann hvort fjölskylda mín rækti sína trú. Svona svipað og ég, sagði ég. Það fannst honum heldur ekki gott.
Nú dæmdi hann mig vísast sem fáfróðan um miklilvægi þess að hafa trú og gildi þess að biðja. Hann tók til við að segja mér sköpunarsöguna, eins og hann skildi hana. Hann vildi reyna að bjarga mér eða svo skildi ég það.
Þú veist að guð skapaði heiminn sagði hann. Hann skapaði líka englana og mennina. Mismunurinn á mönnum og englum er sá að englarnir hafa bara sál, en mennirnir hafa bæði sál og líkama. Einn engillinn Lúsifer gerði uppreisn gegn Guði og reyndist vera vondur engill og Guð sendi hann niður til helvítis og þar er voðalega heitt. Svo voru nokkrir aðrir englar, Demonar, sem vildu ekki sætta sig við að hafa bara sál og Guð sendi þá líka niður til heljar. Þú veist að í heiminum á sér stað stöðug barátta milli hins góða og hins illa. Guð og englarninr standa fyrir hið góða en Lúsifer og árar hans standa fyrir hinu illa. Þegar þú stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun er alltaf engill á annarri öxlinni og púki á hinni og þeir keppast um að hvísla að þér hvað þú eigir að gera.
Ef þér líður ekki vel og þú hefur ekki ræktað garðinn þinn og beðið til Guðs reglulega þá ert þú líklegri til að velja leið hins illa ára, en ef þú ert vinur englanna þá velur þú réttu leiðina. Guð sér um það.
Ef maður fer í kirkju reglulega og biður bænirnar sínar þá passa góðu öflin mann og maður fer ekki að drekka vín, eða reykja eða nota eiturlyf og maður fer ekki að fremja glæpi, stela eða svíkja eða drepa fólk. Maður nær líka alltaf að vera sáttur í hjárta sínu og getur látið sér líða vel hvernig sem staða manns er, því maður veit að Guð lætur mann alltaf gera rétt. Englarnir vaka yfir manni og passa mann.
Svo sagði ég eftir þessa miklu ræðu, þetta lærir þú allt saman í kirkjunni þinni? Ég hef bæði lært þetta, og hef fundið sumt út með sjálfum mér sagði hann.
Þegar ég kom út úr vagninum varð mér hugsað til þess sem þessi félagi minn hafði sagt. Hann hafði í raun búið sér til varnarkerfi fyrir sjálfan sig með trúariðkun sinni sem dugði honum greinilega. Hann þurfti ekki að drekka, reykja eða að fremja glæpi. Hann gat líka alltaf verið sáttur í lífi sínu og látið sér líða vel. Hann gætti fjölskyldu sinnar á sama hátt og fékk hana með í trúariðkunina. Eins og hann sagði sjálfur. Það er svo margt í þessari veröld sem glepur fyrir og púkarnir eru alltaf á öxlinni þinni tilbúnir að segja þér að gera eitthvað rangt. Þú þarft því að halla þér að englunum og hlusta á þá, ef þú vilt ekki lenda á villigötum, og það gerir þú með því að rækta samband þitt við Guð og hið góða.
Ég hugsaði til baka. Ef ég hefði nú haldið sambandi við verndarengilinn minn sem ég átti mér þegar ég var 10-11 ára þá hefði ég kannski farið aðrar leiðir í lífinu eins og hfélagi minn.
Verrndarengillinn minn fylgdi mér alltaf heim úr skólanum á þessum árum. Hann kom til mín þegar ég var að labba yfir stóran mel sem engar byggingar voru á og þar talaði ég við hann og við fórum yfir það hvernig mér hafði gengið síðan síðast. Það var voða gott að tala við hann og hann var mjög raunverulegur og vitur og góður, en hann yfirgaf mig af því ég fór að reykja þegar ég var 11 ára. Hann gaf mér að vísu nokkur tækifæri en ég braut alltaf loforðin á honum um að hætta að reykja og að lokum yfirgaf hann mig alveg. Mér þótti það sárt í fyrstu en svo snjóaði yfir það. Ég hafði síðan ekkert með Guð eða hans fólk að gera fyrr en 40 árum seinna og þá í kapellunni á Vogi eins og fyrr er nefnt.
Ég hugsaði líka um það að verndarengillinn minn hefði í raun verið að reyna að gera það sama fyrir mig og trúin á Guð og góðar vættir hafði gert fyrir félaga minn. Ef ég hefði nú verið vitur þegar ég var snáði og hlustað á verndarengilinn minn? Hvar væri ég þá? Þá hefði ég hætt að reykja, því það var skilyrði af hans hálfu og ég hefði kannski ekki farið að drekka og þar af leiðandi ekki kallað yfir mig öll þessi óskaplegu vandamál sem drykkjan hafði valdið mér. Hvoru megin vildi ég vera?
Það vildi svo merkilega til að þegar ég kom heim aftur úr þessari ferð minni til Amsterdam þá fór ég að fást við annað sporið í AA-bókinni með trúnaðarmanni mínum, en það snýst einmitt um það að sætta sig við það að til sé einhver æðri máttur sem er máttugri okkur sjálfum. Þegar ég fór svo að lesa 4. kalfann Um efahyggjufólk sem snýst alfarið um þetta þá varð hann einhvern vegin miklu aðgengilegri fyrir mig en áður. Þar hafði ég alltaf strandað í AA-vinunni minni áður. Mér fannst ég ekki þurfa á neinum æðri mætti að halda. Ég var nógu sterkur til að standa einn. Ef mér hins vegar færi að líða mjög illa vissi ég alltaf af því að bænin gæti gefið manni styrk.. Ég hafði reynslu af því frá Vogi.
Nú sá ég þetta öðruvísi. Kínverjinn minn bjó sér til varnarmúr með Guði fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína og vendaði sig og hana fyrir öllu illu með því að rækta tengslin við þennan æðri mátt sinn. Væri ég ekki betur settur ef ég hefði gert það líka?
Eftir þetta átti ég mun auðveldara með að sætta mig við Guð. Hann var jú bara framhald af verndarenglinum mínum. Hann myndi bara gera mér gott og hann myndi styrkja mig og á því þurfti ég einmitt á að halda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.1.2007 kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2007 | 14:39
Þroskaheftir einstaklingar
Fyrir ca 3 árum sagði yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þetta.
"Þegar ungt fólk byrjar að drekka áfengi stöðvast andlegur þroski þess og hann fer ekki aftur af stað fyrr en það hættir drykkju"
Þetta er meðal annars ástæða þess að drykkjumenn hegða sér oft eins og börn. Marga hef ég heyrt lýsa því að þegar þeir hættu að neyta áfengis (oftast af því að þeir fóru í meðferð) þá hafi þeir uppgötvað að þeir hefðu andlegan þroska á við ungling.
Áfengi ruglar boðefnabúskapnum í heilanum. Þetta virkar svona svipað eins og við hugsuðum okkur að heilinn væri tunna full af tæru vatni með mold í botninum. Á meðan vatnið er tært og unnt er að sjá í gegnum það er heilastarfsemin í lagi og maður fungerar sem venjulegur maður. Þegar maður drekkur hins vegar þá gruggast upp í tunnunni og ljósgeislarnir smjúga ekki lengur gegnum vatnið. Þá truflast boðefnabúskapur heilans.
Þegar menn verða aftur 'edrú' og vínið er farið úr blóðinu halda menn að þeir séu allsgáðir og allt sé í lagi. Það er ekki svo. Það tekur boðefnabúskapinn margar vikur að ná sér aftur, það er að segja það tekur gruggið í tunnunni margar vikur að setjast til. Á meðan eru heilastarfsemin ekki í lagi.
Margir drekka líka ofan í þetta tímabil og grugga aftur upp í tunnunni þannig að heilastarfsemin nær sér aldrei á strik. Þetta er ástæðan fyrir því að drykkjumenn verða þroskaheftir.
Áfengi | Breytt 15.1.2007 kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 12:49
Pabbi minn er alki!
(Það er 6 sinnum fleiri meðvirklar á Íslandi en alkóhólistar og þeir fá sáralitla hjálp)
------
Hæ dr. love.
Þannig er mál með vexti að pabbi minn er alki og segir það sjálfur. Hann kemur heim á fimmtudögum og byrjar að drekka nokkra þá að hans mati eru þeir bara nokkrir (en í raun er það minnst kippa). Hann mætir alltaf til vinnu og stendur í skilum í banka, hefur aldrei gert mér neitt illt nema þó það að ég hef mikilar áhyggjur af þessari drykkju.
Við búum bara tvö. Ég get ekkert farið því hann kemur bara þangað grenjandi og lofar öllu fögru, því hann veit að hann hefur mig í vasanum. Ég má ekki byrja að tala um drykkjuna við hann, þetta er hans mál og það má enginn skipta sér af þessu. Ég hef farið á fundi uppá Teigi og SÁÁ en það hjálpaði mér ekki. Pabbi hefur farið 3-4 sinnum í meðferð, hefur mest haldið sér hreinum í 3 ár en svo ekki meir. Mamma drekkur líka svo að ekki fer ég þangað og þar er ég lamin.
Ég elska pabba minn meira en allt. Hann hefur reynst mér mjög vel fyrir utan þetta og að ég hef aldrei fengið faðmlag eða neina hlýju. Ég á að vera sterka góða týpan sem segir ekkert. Hvað get ég gert? Ég vil ekki fara frá honum, því þá versnar þetta allt. Í raun er ég orðin það gömul að ég ætti að vera farin að heiman en ég get það ekki. Gerðu það viltu benda mér á einhverja leið sem ég get prófað?
Með fyrirfram þökk
Ein í neyð.
Svar Dr. Love
Kæra ein í neyð.
Þú ert uppkomið barn alkahólista. Það eru miklar líkur á því að þú sért líka meðvirk. Meðvirkni felst ekki bara í því að hjálpa honum að drekka og láta hann komast upp með það og segja ekki neitt daginn eftir. Það flokkast undir meðvirkni að búa ennþá hjá pabba sínum, af því maður þarf að passa uppá hann eins og barn. Ef þú ferð, byrjar hann að grenja. Hann er svo mikill "manipulator" að hann höfðar til samvisku þinnar til að halda þér inná heimilinu.
Það kallast líka meðvirkni þegar þú reynir að stjórna alkanum og reyna að fá hann til að hætta að drekka. Þar með eyðir þú allri þinni orku í að stjórna lífi annara, og ert alveg búin á því þegar röðin kemur að stjórna þínu eigin. Allt fokkast upp.
Vesenið er - að uppkomin börn alkahólista lifa í tvískiptum veruleika. Þau lifa í veruleikanum utanhúss, þar sem allt er í gúddí - og svo veruleikanum innanhúss, þar sem allt heimilið snýst í kringum alkann. Fullt af baneitruðum leyndarmálum sem mega ekki fréttast út fyrir hússins dyr. Þau losna ekki útúr þessu mynstri hjálparlaust.
Það er til lausn. Hún heitir AL-ANON. Það eru samtök aðstandenda drykkjusjúklinga. Þú getur klikkað hér til að fá allar nánari upplýsingar á heimasíðunni www.al-anon.is
AL-ANON er ekki AA-samtökin, eins og margir rugla saman. Þau vinna jú á svipuðum forsendum, eftir svipuðu kerfi. En sumir í AL-ANON hafa aldrei drukkið deigann dropa af áfengi. Þarna eru aðstandendur alkahólista, mæður, feður, systkyni, eiginkonur, eiginmenn, börn, barnabörn, vinir, ættingjar, kærastar og kærustur. Alkahólistinn skilur eftir sig fólk í sárum útum víðann völl, og AL-ANON er sérstaklega ætlað þessu fólki.
Þú sagðir að SÁÁ og Teigar hafi ekki hjálpað þér. Kannski hefur þú hreinlega verið of óþolinmóð. Heimtað "lækningu" strax. Þolinmæðin og æðruleysið eru bestu lækningatólin sem þú hefur í höndunum / heilanum. Þú fattar sjálf hvenær þú upplifir þessa AL-ANON / SÁÁ vinnu á réttan hátt sem passar þér. AL-ANON þjónustan er ókeypis. Tekið er við frjálsum framlögum í lok funda.
Það fríkaðasta sem þú munt gera er að geta sagt við sjálfa þig: "Pabbi minn er sjúklingur. Ég get ekki læknað hann. Hann verður að vilja það sjálfur." Þetta er eins og mamma þín væri krabbameinssjúklingur, og þú myndir garga á hana: "Hvað er að þér, af hverju getur þú ekki verið bara normal eins og annað fólk? Læknastu, helvítið þitt!"
Nú kemur aðal "punchline"-ið: ÞÚ ert jafn mikill sjúklingur og pabbi þinn. Ókei, þú mátt alveg kýla tölvuskjáinn, brjóta öskubakka, arga og garga. Gerðu það bara. Allt í lagi. Maður má garga þegar sannleikurinn bítur í hjartað á manni - og kemur óþægilega við mann. Þetta er eins og að rífa af sér risastórann plástur, og svo hjaðna öskrin eftir augnablik.
1) Þú átt ekki að hafa áhyggjur af drykkju pabba þíns eða mömmu. Þau eru fullorðið fólk sem ræður hvað það gerir við líf sitt. Þú líka. Ef foreldrar þínir fokka upp lífi sínu vegna drykkjuskapar, þá verður þú að leyfa þeim að fokka upp lífi sínu sjálf. Þú verður að leyfa þeim að læra.
2) Þú átt að flytja að heiman. Það er eðlilegt. Þú ert orðin nógu gömul til þess, og það er sjúkleikamerki að hanga heima hjá pabba sínum af því maður þarf að "passa hann eins og barn". Pabbi þinn er ekki barn. Það ert þú sem ert barnið. Og nú ert þú orðin fullorðin. Finndu þér íbúð og andaðu rólega.
3) Farðu á AL-ANON fundi. Tékkaðu á fundartöflunni á heimasíðunni þeirra hér og sjáðu hvaða fundir passa best fyrir þig persónulega. Ég mæli með því að þú farir á ALLA fundi sem þú kemst á - og veljir svo þann fund sem þú fílar best til að mæta á reglulega í framtíðinni.
4) Lestu bækurnar "UPPKOMIN BÖRN ALKAHÓLISTA" (fæst í bókabúðum) og "EINN DAGUR Í EINU" (fæst hjá AL-ANON).
Mundu, að þetta er langtímaverkefni. Stærsti göngutúr sem þú munt fara á æfinni - því hann tekur alla æfina. En þetta verður líka eitt mesta ævintýri lífs þíns, þegar þú ert tilbúin til að fatta þetta.
Góðir hlutir gerast hægt Gangi þér vel,
ÞINN UPPKOMNI
DR. LOVE
----
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.1.2007 kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2007 | 22:40
Óbein drykkja er hættuleg
Fyribærið 'óbeinar reykingar' er vel þekkt. Það veldur mönnum heilsutjóni að vera í návist fólks sem reykir.
Óbein drykkja er það þegar menn er samvistum við fólk sem neytir áfengis. Þeir sem búa með eða eru í nánum samvistum við mann sem drekkur mikið verða meðvirkir.
Meðvirkni er sjúkdómur sem menn losna ekki aftur við án hjálpar Hann getur valdið alvarlegum truflunun á lífi manna og jafnvel geðveiki.
Hvers vegna er meðvirkni ekki tekin í dæmið þegar skaðsemi áfengisneyslu er metin?
15.1.2007 | 22:36
AA leiðin
Eina þekkta leiðin sem virkar til að losna úr viðjum þeirra persónuleikabreytinga sem áfengisneysla veldur er að vinna sporin 12 í AA.
Vandinn er samt að þeir sem ekki hafa þegar skemmt sig á áfengisneyslu skilja alls ekki hvað er verið að tala um og hinir sem eru orðnir skemmdir og eru enn í neyslu vilja ekki vita þetta.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar