16.1.2007 | 12:49
Pabbi minn er alki!
(Það er 6 sinnum fleiri meðvirklar á Íslandi en alkóhólistar og þeir fá sáralitla hjálp)
------
Hæ dr. love.
Þannig er mál með vexti að pabbi minn er alki og segir það sjálfur. Hann kemur heim á fimmtudögum og byrjar að drekka nokkra þá að hans mati eru þeir bara nokkrir (en í raun er það minnst kippa). Hann mætir alltaf til vinnu og stendur í skilum í banka, hefur aldrei gert mér neitt illt nema þó það að ég hef mikilar áhyggjur af þessari drykkju.
Við búum bara tvö. Ég get ekkert farið því hann kemur bara þangað grenjandi og lofar öllu fögru, því hann veit að hann hefur mig í vasanum. Ég má ekki byrja að tala um drykkjuna við hann, þetta er hans mál og það má enginn skipta sér af þessu. Ég hef farið á fundi uppá Teigi og SÁÁ en það hjálpaði mér ekki. Pabbi hefur farið 3-4 sinnum í meðferð, hefur mest haldið sér hreinum í 3 ár en svo ekki meir. Mamma drekkur líka svo að ekki fer ég þangað og þar er ég lamin.
Ég elska pabba minn meira en allt. Hann hefur reynst mér mjög vel fyrir utan þetta og að ég hef aldrei fengið faðmlag eða neina hlýju. Ég á að vera sterka góða týpan sem segir ekkert. Hvað get ég gert? Ég vil ekki fara frá honum, því þá versnar þetta allt. Í raun er ég orðin það gömul að ég ætti að vera farin að heiman en ég get það ekki. Gerðu það viltu benda mér á einhverja leið sem ég get prófað?
Með fyrirfram þökk
Ein í neyð.
Svar Dr. Love
Kæra ein í neyð.
Þú ert uppkomið barn alkahólista. Það eru miklar líkur á því að þú sért líka meðvirk. Meðvirkni felst ekki bara í því að hjálpa honum að drekka og láta hann komast upp með það og segja ekki neitt daginn eftir. Það flokkast undir meðvirkni að búa ennþá hjá pabba sínum, af því maður þarf að passa uppá hann eins og barn. Ef þú ferð, byrjar hann að grenja. Hann er svo mikill "manipulator" að hann höfðar til samvisku þinnar til að halda þér inná heimilinu.
Það kallast líka meðvirkni þegar þú reynir að stjórna alkanum og reyna að fá hann til að hætta að drekka. Þar með eyðir þú allri þinni orku í að stjórna lífi annara, og ert alveg búin á því þegar röðin kemur að stjórna þínu eigin. Allt fokkast upp.
Vesenið er - að uppkomin börn alkahólista lifa í tvískiptum veruleika. Þau lifa í veruleikanum utanhúss, þar sem allt er í gúddí - og svo veruleikanum innanhúss, þar sem allt heimilið snýst í kringum alkann. Fullt af baneitruðum leyndarmálum sem mega ekki fréttast út fyrir hússins dyr. Þau losna ekki útúr þessu mynstri hjálparlaust.
Það er til lausn. Hún heitir AL-ANON. Það eru samtök aðstandenda drykkjusjúklinga. Þú getur klikkað hér til að fá allar nánari upplýsingar á heimasíðunni www.al-anon.is
AL-ANON er ekki AA-samtökin, eins og margir rugla saman. Þau vinna jú á svipuðum forsendum, eftir svipuðu kerfi. En sumir í AL-ANON hafa aldrei drukkið deigann dropa af áfengi. Þarna eru aðstandendur alkahólista, mæður, feður, systkyni, eiginkonur, eiginmenn, börn, barnabörn, vinir, ættingjar, kærastar og kærustur. Alkahólistinn skilur eftir sig fólk í sárum útum víðann völl, og AL-ANON er sérstaklega ætlað þessu fólki.
Þú sagðir að SÁÁ og Teigar hafi ekki hjálpað þér. Kannski hefur þú hreinlega verið of óþolinmóð. Heimtað "lækningu" strax. Þolinmæðin og æðruleysið eru bestu lækningatólin sem þú hefur í höndunum / heilanum. Þú fattar sjálf hvenær þú upplifir þessa AL-ANON / SÁÁ vinnu á réttan hátt sem passar þér. AL-ANON þjónustan er ókeypis. Tekið er við frjálsum framlögum í lok funda.
Það fríkaðasta sem þú munt gera er að geta sagt við sjálfa þig: "Pabbi minn er sjúklingur. Ég get ekki læknað hann. Hann verður að vilja það sjálfur." Þetta er eins og mamma þín væri krabbameinssjúklingur, og þú myndir garga á hana: "Hvað er að þér, af hverju getur þú ekki verið bara normal eins og annað fólk? Læknastu, helvítið þitt!"
Nú kemur aðal "punchline"-ið: ÞÚ ert jafn mikill sjúklingur og pabbi þinn. Ókei, þú mátt alveg kýla tölvuskjáinn, brjóta öskubakka, arga og garga. Gerðu það bara. Allt í lagi. Maður má garga þegar sannleikurinn bítur í hjartað á manni - og kemur óþægilega við mann. Þetta er eins og að rífa af sér risastórann plástur, og svo hjaðna öskrin eftir augnablik.
1) Þú átt ekki að hafa áhyggjur af drykkju pabba þíns eða mömmu. Þau eru fullorðið fólk sem ræður hvað það gerir við líf sitt. Þú líka. Ef foreldrar þínir fokka upp lífi sínu vegna drykkjuskapar, þá verður þú að leyfa þeim að fokka upp lífi sínu sjálf. Þú verður að leyfa þeim að læra.
2) Þú átt að flytja að heiman. Það er eðlilegt. Þú ert orðin nógu gömul til þess, og það er sjúkleikamerki að hanga heima hjá pabba sínum af því maður þarf að "passa hann eins og barn". Pabbi þinn er ekki barn. Það ert þú sem ert barnið. Og nú ert þú orðin fullorðin. Finndu þér íbúð og andaðu rólega.
3) Farðu á AL-ANON fundi. Tékkaðu á fundartöflunni á heimasíðunni þeirra hér og sjáðu hvaða fundir passa best fyrir þig persónulega. Ég mæli með því að þú farir á ALLA fundi sem þú kemst á - og veljir svo þann fund sem þú fílar best til að mæta á reglulega í framtíðinni.
4) Lestu bækurnar "UPPKOMIN BÖRN ALKAHÓLISTA" (fæst í bókabúðum) og "EINN DAGUR Í EINU" (fæst hjá AL-ANON).
Mundu, að þetta er langtímaverkefni. Stærsti göngutúr sem þú munt fara á æfinni - því hann tekur alla æfina. En þetta verður líka eitt mesta ævintýri lífs þíns, þegar þú ert tilbúin til að fatta þetta.
Góðir hlutir gerast hægt Gangi þér vel,
ÞINN UPPKOMNI
DR. LOVE
----
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Áfengi | Breytt 15.1.2007 kl. 22:31 | Facebook
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.