Hvað gerir AA sporavinnan fyrir mig?

Í mörg herrans ár eða nánar tiltekið 10 ár eftir að ég hætti að drekka vann ég ekki sporin samkvæmt AA bókinni. Ég hafði óbeit á öllu þessu tali um Guð sem fylgdi þeirrri vinnu og ég taldi mig einfaldlega ekki þurfa á trú að halda þótt ég væri búinn að komast að því að hún gat gert mér gott ef svo bæri undir og mér liði nógu illa, og þessi afstaða mín hindraði mig því í að byrja sporavinnuna af einhverju viti. Ég byrjaði nokkrum sinnum á verkefninu en kláraði einu sinni aldrei fyrsta sporið sem fjallar um það að skilja og finna að maður væri vanmáttugur gegn áfengi og að líf manns væri í hers höndum, stjórnlaust.

Loks þegar mér var farið að líða nógu illa vegna þess að ég fann að það var um það bil að slitna upp úr fjölskyldutengslum hjá mér, dóttir mín var orðin andsnúin mér,  fann ég mér enn einu sinni trúnaðarmann og ég var nu ákveðinn í að gleypa það sem þyrfti til að geta farið í gegnum sporin 12 því ég var búinn að sjá að það gerði fólki gott. Ég var sem sé búinn að sjá þess mýmörg dæmi að menn urðu að minnsta kosti upplitsdjarfir og kátir, viðmótsþýðir og frjálslegir og þeim virtist líða vel sem höfðu farið þessa leið. Mig langaði líka í þessa líðan.

Trúnaðarmaðurinn minn eða sponsorinn, eins og hann er kallaður, var náungi sem var helmingi yngri en ég, og hafði á um það bil einu ári breyst úr andlegu flaki sem hafði misst kærustuna sína vegna framkomu sinnar við hana og enginn vildi lengur samsama sig við og sem átti enga vini og menn forðuðust, sem sé breyst í upplitsdjarfan og traustvekjandi einstakling sem allir báru virðingu fyrir og vildu vera með og tala við. Ekki er það lítil breyting fyrir einn einstakling á jafnskömmum tíma! Og eru þetta þó engar ýkjur. Þetta fannst mér vera rétti maðurinn fyrir mig.  Svona árangri vildi ég ná.

Ég bað þennan náunga um að hjálpa mér í gegnum sporin og það var auðsótt mál. “’Eg er ekki bara að gera þetta fyrir þig, ég þarf á þessu að halda líka, það hjálpar mér” sagði hann. Ég var svolítið tregur til að láta þennan gæja stjórna mér og lagði fjöldann allan af hvössum spurningum fyrir  hann. Ég var eins og enn svolítið hræddur um að þessi vinna væri eitthvert “fake” eftir allt saman. Einhver sjálfsblekking og ímyndun. Ég vildi tryggja mér að svo væri ekki. Mér hafði oft fundist menn ganga of langt þegar þeir fóru í þessa sporavinnu og falla eins og í trans og klifa eftir það bara á Guði og sporunumm, og að allir sem ekki voru sammála þeim væru vondir og burtrækir eða bjánar sem ekki vissu hvað þeir væru að gera. Ekkert umburðarlyndi eða auðmýkt. Ég vildi ekki taka þátt í svoleiðis. Þeir komu fram eins og ofstækismenn í trúmálum í mínum augum. Trúnaðarmaðurinn minn hafði ekki komið þannig fram . Hann var mátulega hófsamur fyrir mig. Tranaði sér aldrei fram eða reyndi að þröngva upp á mig eða aðra sínum skoðunum. Það líkaði  mér.

Ég spurði hann í upphafi okkar srtarfs þessar einföldu og þó yfirgripsmiklu spurningar. Hvað telur þú að maður fái út úr því að vinna sporin? Það stóð ekki á svarinu. “Meðan maður er að ennþá  að drekka þá hefur maður bara eina lausn ef manni fer að líða illa, það er að fá sér í glas. Það er lausn fyrir mann sem er í neyslu og gefur honum tímabundna betri líðan. Ef maður hættir að drekka og fer ekki að vinna sporin þá vantar mann einhverja lausn þegar manni líður illa, og maður finnur þá eitthvað annað sem veitir manni friðþægingu í sálinni. Sumir hnýta flugur aðrir sökkva sér ofan í tölvuna og enn aðrir borða bara meira. Þegar alkóhólista líður illa og hann hefur enga lausn sér hann bara tvær leiðir út úr vandanum, að fara að drekka eða að drepa sig. Alkóhólistinn verður því alltaf að hafa lausn fyrir sig annars getur farið illa. Lausnir eins og að hnýta flugur, vesenast í tölvunni eða borða eru samt bara gervilausnir og laga ekkert hans vandamál   þótt honum líði aðeins betur tímabundið svona eins og þegar hann fékk sér í glas áður. Hann er ekkert að vinna í skapgerðarbrestunum sínum og persónuleikabreytingunum sem hafa þó komið honum þangað sem hann er staddur. Þeir halda áfram að grassera á fullu og gera honum skaða, það er að segja geðveikin heldur áfram. Menn gera satt að segja oft miklu verri skissur og geðveikislega hluti ódrukknir með margra ára edrúmennsku að baki en þeir gerðu nokkurn tíma meðan þeir voru enn í neyslu, ef þeir hafa ekki unnið neitt á þessum “andlega meinum” sínum með því að fara í gegnum sporin. Það sem maður fær út úr því að vinna sporin er að maður vinnur á þessum brestum sínum eða persónuleikabreytingum eftir föngum og maður fær nýja lausn inn í líf sitt. Þú getur getið upp á því hver hún er” Ég vissi að hann meinti Guð. Ég var tilbúinn til að taka við fyrri partinum af skýringunni en ekki þessu með Guð, en hann sagði að það gerði ekkert til við þyrftum ekki á því að halda núna.  

Svo sagði hann. “ Vandamál alkóhólistans eru þrenns konar: Hann er með líkamlegt ofnæmi. Þetta er ofnæmi fyrir áfengi, því alkóhólistinn sýnir ofnæmisviðbrögð. Ef hann lætur áfengi inn fyrir sínar varir veit hann ekki hvort eða hvenær hann getur hætt. Hann hefur enga stjórn á þessum viðbrögðum, svona rétt eins og maður sem er með ofnæmi fyrir kattarhári fær óstöðvandi kláða og útbrot og köfnunartilfinningu svo lengi sem hann er í snertingu við kattarhár.” “Hmm..” Segi ég. “Ég hef nú ekki þetta vandamál. Það er svo langt síðan ég drakk síðast eða 10 ár svo öll löngun í áféngi er löngu horfin og þess vegna lendi ég aldrei í því að ýfa upp svona ofnæmi ef það er þá fyrir hendi.” “Það er alveg sama,”segir hann “þú þarft að horfa til baka og muna að ef þú lendir einhverntíma aftur í þeirri stöðu að fara aftur að drekka þá er það einmitt þetta ofnæmi sem olli því að þú drakkst alltaf meira og lengur en margir aðrir. Er það ekki?”

“Vandmál alkóhólistans númer tvö er svo “huglæga þráhyggjan”,”heldur hann áfram. “Þegar þú varst ekki að drekka hérna áður fyrr, að minnsta kosti, þá átti Baccus alltaf til með að snúa upp á huga þinn og  telja þér trú um að þetta hafi nú ekki verið svo slæmt síðast þegar þú drakkst, þú gleymir því auðveldlaga á fimmtudegi sem stóð þér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum á mánudegi, og þú kemur aftur við í ríkinu á leiðinni heim. Þá var kannski þessi spegill sem þú braust heima hjá þér þegar þú komst heim dauðadrukkinn um miðja nótt og rifrildið við konuna og hótanir hennar um að fara frá þér ef þú héldir svona áfram ekkert svo alvarlegt mál. Af hverju er líka alltaf þessi gauragangur í kerlingunni þó maður fái sér aðeins í glas.” “ Já, en ég er með svo langa edrúmennsku að baki að ég þarf ekkert að vera að hafa áhyggjur af þessu,” segi ég, “ég lendi ekkert í því að búa mér til svona glansmyndir af drykkjunni lengur og í mér er engin fíkn í áfengi heldur. Mig hefur ekki langað í áfengi eða dreymt um áfengi í mörg herrans ár.” “Þú þarft nú samt að spóla pínulítið til baka í huganum” segir hann” og muna að það var einmitt svona sem þetta gerðist  að þú fórst alltaf að drekka aftur og aftur, hversu oft og innilega sem þú lofaðir sjálfum þér og öðrum að hætta.

Þessi tvö vandamál eru þá bara ekki virk í þér núna, en þú hefur ekkert læknast af þeim. Athugaðu það!

Þriðja vandamál alkóhólistans og það sem ekki lagast með tímanum af sjálfu sér eru svo “þessi andlegu mein” sem þú hefur hlotið af drykkjunni. Þú ert vísast skapstyggur, ófullnægður og eirðarlaus og reyndar margt fleira. Áfengið hefur smám saman breytt persónuleika þínum og skapgerð. Þú þarft að vinna að því skipulega að breyta þér til baka eftir föngum. Til þess hefurðu sporin. Þar tekurðu á þessum brestum þínum og losar þig við þá. Er það ekki góð tilhugsun og eitthvað að keppa að?”

Ég spurði enn. “Þú sagðir í upphafi að við þyrftum að lesa sama AA bókina. Hvers vegna þurfum við þess annars?”  “Við þurfum að lesa hana saman til þess að tengja okkur betur við efnið. Þú þarft að merkja við allt sem þú tengir þig við og spyrja um leið spurninga ef þú skilur ekki eitthvað. Þú átt eftir að sjá að þú sérð ýmilslegt nýtt út úr efninu í bókinni jafnvel þótt þú hafir lesið bókin hundrað sinnum áður. Það er líka vert að geta þess að menn geta ekki unnið sporin einir. Þeir þurfa alltaf hálp. All vega gerir það málið mun viðráðanlegra.og líklegra til árangurs.”

Við lásum síðan saman fyrsta annan og þriðja kafla AA bókarinnar sem fjallar um fyrsta sporið eingöngu en það hljóðar svo:

1.    Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna lífi okkar.

Mér tókst að sjá í þessum köflum hvað ég hafði verið vanmáttugur gegn áfengi og að ég myndi vísast ekkert frekar geta stjórnað drykkjunni núna. Mér tókst líka að sjá hve litla stjórn ég hafði á lífi mínu jafnvel þótt ég væri búinn að vera svon lengi án áfengis.
Þegar ég fann Guð

Það sem lengst af hindraði mig í því að fara að vinna sporin af einhverri alvöru var að ég gat ekki hugsað mér að fara að biðja til Guðs. Ég var ekki trúaður og ég áleit það að biðja til Guðs vera veikleikamerki í raun.

Eina sambandið sem ég hafði haft við æðri mátt frá því ég var 11 ára hafði ég þegar ég var inni á Vogi 1995 þá gersamlega í molum andlega og félagslega því fjölskyldan hafði snúið baki við mér. Þá fór ég eitt kvöldið inn í Kapelluna sem þar var og settist í stól fyrir framan mynd af Jesú og spennti greipar með semingi og bað um styrk. Ég hugleiddi líka í leiðinni hvað ég var að gera. Þetta var ekki minn stíll að gera svona, en ég var yfirkominn af harmi og eymd og vorkenndi sjálfum mér heil sósköp. Ég fann samt strax að bara þetta litla atriði að hafa getað brotið odd af oflæti mínu og beðist fyrir gaf mér aukinn styrk. Ég stóð síðan upp eftir nokkra stund og hugsaði með mér. Það er gott að vita þetta, ég get þá alltaf leiðað í þetta skjól að biðjast fyrir ef mér skyldi fara að líða mjög illa. Eftir þetta kvöld baðst ég ekki fyrir í heil 10 ár.

Það var svo árið 2005, þegar var staddur úti í Amsterdam hjá dóttur minni að ég var eitt sinn að fara ofan í bæ og ætlaði með Sporvagninum. Þegar ég kom að stoppistöðinni var þar einn maður fyrir. Ég ávarpaði hann og spurði hvort strætó væri ef til vill nýfarinn. Nei, hann hélt hann væri rétt ókominn og svo fórum við saman og skoðuðum tímatöfluna sem var þarna á stöðinni. Niðurstana var að það væri 7 mínútur í næsta strætó. Við sammæltums um að það væri alveg viðráðanlegt. Síðan fórum við bara að spjalla um allt mögulegt.

Náunginn var með austurlenskt útlit, það kom í ljós síðar í samtalinu að foreldrar hans voru fæddir í Hong Kong, og hann varr bara hinn skrafhreyfnasti. Ég er líklega alltaf frekar fámáll, svolítill durtur, en samt tókst okkur ágætlega að tala saman. Þegar við vorum komnir upp í vagninn settist hann fyrstur og benti mér síðan að setjast hjá sér og við héldum áfram spjallinu.

Nú kom hann því að hvert hann væri að fara. Hann var á leiðinni í kirkju. Hann var Kaþólskur og var að fara til messu niðri í bæ sem hófst kl 6. Hann sagðist alltaf fara í kirkju á sunnudögum og oftar ef hann kæmi því við. Hann sagðist leggja rækt við sína trú eftir föngum. Síðan spurði hann mig hvort ég færi í kirkju. Nei ekki mikið sagði ég, helst á jólunum eða svo. Varla meira. Honum fannst það nú greinilega ekki nógu gott, þótt hann gagnrýndi það ekki. Síðan spurði hann hvort fjölskylda mín rækti sína trú. Svona svipað og ég, sagði ég. Það fannst honum heldur ekki gott.

Nú dæmdi hann mig vísast sem fáfróðan um miklilvægi þess að hafa trú og gildi þess að biðja. Hann tók til við að segja mér sköpunarsöguna, eins og hann skildi hana. Hann vildi reyna að bjarga mér eða svo skildi ég það.

Þú veist að guð skapaði heiminn sagði hann. Hann skapaði líka englana og mennina. Mismunurinn á mönnum og englum er sá að englarnir hafa bara sál, en mennirnir hafa bæði sál og líkama. Einn engillinn Lúsifer gerði uppreisn gegn Guði og reyndist vera vondur engill og Guð sendi hann niður til helvítis og þar er voðalega heitt. Svo voru nokkrir aðrir englar, Demonar, sem vildu ekki sætta sig við að hafa bara sál og Guð sendi þá líka niður til heljar. Þú veist að í heiminum á sér stað stöðug barátta milli hins góða og hins illa. Guð og englarninr standa fyrir hið góða en Lúsifer og árar hans standa fyrir hinu illa. Þegar þú stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun er alltaf engill á annarri öxlinni og púki á hinni og þeir keppast um að hvísla að þér hvað þú eigir að gera.

Ef þér líður ekki vel og þú hefur ekki ræktað garðinn þinn og beðið til Guðs reglulega þá ert þú líklegri til að velja leið hins illa ára, en ef þú ert vinur englanna þá velur þú réttu leiðina. Guð sér um  það.  

Ef maður fer í kirkju reglulega og biður bænirnar sínar þá passa góðu öflin mann og maður fer ekki að drekka vín, eða reykja eða nota eiturlyf og maður fer ekki að fremja glæpi, stela eða svíkja eða drepa fólk. Maður nær líka alltaf að vera sáttur í hjárta sínu og getur látið sér líða vel hvernig sem staða manns er, því maður veit að Guð lætur mann alltaf gera rétt. Englarnir vaka yfir manni og passa mann.

“Svo” sagði ég eftir þessa miklu ræðu, “þetta lærir þú allt saman í kirkjunni þinni?” “Ég hef bæði lært þetta, og hef fundið sumt út með sjálfum mér” sagði hann.

Þegar ég kom út úr vagninum varð mér hugsað til þess sem þessi félagi minn hafði sagt. Hann hafði í raun búið sér til varnarkerfi fyrir sjálfan sig með trúariðkun sinni sem dugði honum greinilega. Hann þurfti ekki að drekka, reykja eða að fremja glæpi.  Hann gat líka alltaf verið sáttur í lífi sínu og látið sér líða vel. Hann gætti fjölskyldu sinnar á sama hátt og fékk hana með í trúariðkunina. Eins og hann sagði sjálfur. Það er svo margt í þessari veröld sem glepur fyrir og púkarnir eru alltaf á öxlinni þinni tilbúnir að segja þér að gera eitthvað rangt. Þú þarft því að halla þér að englunum og hlusta á þá, ef þú vilt ekki lenda á villigötum, og það gerir þú með því að rækta samband þitt við Guð og hið góða.

Ég hugsaði til baka. Ef ég hefði nú haldið sambandi við verndarengilinn minn sem ég átti mér þegar ég var 10-11 ára þá hefði ég kannski farið aðrar leiðir í lífinu eins og hfélagi minn.

Verrndarengillinn minn fylgdi mér alltaf heim úr skólanum á þessum árum. Hann kom til mín þegar ég var að labba yfir stóran mel sem engar byggingar voru á og þar talaði ég við hann og við fórum yfir það hvernig mér hafði gengið síðan síðast. Það var voða gott að tala við hann og hann var mjög raunverulegur og vitur og góður, en hann  yfirgaf mig af því ég fór að reykja þegar ég var 11 ára. Hann gaf mér að vísu nokkur tækifæri en ég braut alltaf loforðin á honum um að hætta að reykja og að lokum yfirgaf hann mig alveg. Mér þótti það sárt í fyrstu en svo snjóaði yfir það. Ég hafði síðan ekkert með Guð eða hans fólk að gera fyrr en 40 árum seinna og þá í kapellunni á Vogi eins og fyrr er nefnt.

Ég hugsaði líka um það að verndarengillinn minn hefði í raun verið að reyna að gera það sama fyrir mig og trúin á Guð og góðar vættir hafði gert fyrir félaga minn. Ef ég hefði nú verið vitur þegar ég var snáði og hlustað á verndarengilinn minn? Hvar væri ég þá? Þá hefði ég hætt að reykja, því það var skilyrði af hans hálfu og ég hefði kannski ekki farið að drekka og þar af leiðandi ekki kallað yfir mig öll þessi óskaplegu vandamál sem drykkjan hafði valdið mér. Hvoru megin vildi ég vera?

Það vildi svo merkilega til að þegar ég kom heim aftur úr þessari ferð minni til Amsterdam þá fór ég að fást við annað sporið í AA-bókinni með trúnaðarmanni mínum, en það snýst einmitt um það að sætta sig við það að til sé einhver æðri máttur sem er máttugri okkur sjálfum. Þegar ég fór svo að lesa 4. kalfann Um efahyggjufólk sem snýst alfarið um þetta þá varð hann einhvern vegin miklu aðgengilegri fyrir mig en áður. Þar hafði ég alltaf strandað í AA-vinunni minni áður. Mér fannst ég ekki þurfa á neinum æðri mætti að halda. Ég var nógu sterkur til að standa einn. Ef mér hins vegar færi að líða mjög illa vissi ég alltaf af því að bænin gæti gefið manni styrk.. Ég hafði reynslu af því frá Vogi.

Nú sá ég þetta öðruvísi. Kínverjinn minn bjó sér til varnarmúr með Guði fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína og vendaði sig og hana fyrir öllu illu með því að rækta tengslin við þennan æðri mátt sinn. Væri ég ekki betur settur ef ég hefði gert það líka?

Eftir þetta átti ég mun auðveldara með að sætta mig við Guð. Hann var jú bara framhald af verndarenglinum mínum. Hann myndi bara gera mér gott og hann myndi styrkja mig og á því þurfti ég einmitt á að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Þakka þér fyrir, maður getur lært mikið af að lesa bloggið þitt.

Birna M, 16.1.2007 kl. 10:36

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Gott. Takk.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.1.2007 kl. 22:03

3 identicon

Mér finnst alltaf gott að lesa frásagnir fólks sem hefur fengið þessa lausn inn í sitt líf, hefur fengið andlega vakningu, orðið fyrir róttækri sálrænni breytingu og losnað úr vonlausu ástandi sálar og líkama. Það er gott að gera út boðskapinn en ég trúi því heitt og innilega að besta leið AA-manns til að bera út boðskapinn sé að starfa í anda erfðavenjanna. Nafnleyndin og nafnleysið snúast snúast ekki bara um skömm þess sem vill ekki að umhverfið viti að hann er alkóhólisti. Tökum velferð og reynslu samtakanna fram yfir okkar eigin hugmyndir og metnað  og gætum nafnleyndar á opinberum vettvangi.

wilson (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Reynir Hugason
Reynir Hugason
Ég heiti Reynir Hugason og bý á Selfossi. Hress og góður karl með skoðanir.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 11328

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband