Óbein neysla áfengis. Hvað er það?

Brennivín
Óbeinar reykingar eru alþekkt hugtak. Þeir sem þvingast til að vera í umhverfi þar sem fólk er að reykja og komast því ekki hjá því að anda að sér tóbaksreyk eru útsettir fyrir óbeinar reykingar og það veldur ýmsum vandamálum í heilsufari þeirra, sérstaklega ef þessi samvera með reykingamönnum er langvarandi. Þá geta  menn fengið lungnakrabba og ýmsa hjarta- og æðasjúkdóma  rétt eins og reykingamenn..

Óbeina neyslu áfengis má skilgreina á svipaðan hátt.  Það er þá óbein neysla áfengis þegar menn þvingast til að vera samvistum við einhvern sem er að drekka áfengi að staðaldri. Einkum ef þær samvistir eru til langs tíma, eins og til dæmis í hjónabandi, eða um börn innan fjölskyldu er að ræða, þar sem drukkið er, eða þá á vinnustað þar sem menn eru jú meira samvistum við þann sem er að drekka en jafnvel fjölskyldan heima.

Ef samlíkingin við óbeinar reykingar á að ganga upp  þarf  “óbein neysla áfengis” að vera jafn skaðleg á sinn hátt fyrir þann sem ekki neytir áfengis og óbeinar reykingar eru fyrir þann sem ekki notar tóbak, en það er hún einmitt, eins og nú skal nánar útskýrt.

Sá sem er, eða þvingast til, að vera samvistum við annan sem að staðaldri neytir áfengis kallast aðstandandi. Að vera aðstandandi (codependent) getur gert menn mjög veika. Um þetta má lesa í lærðum ritum. (sjá t..d. Codependent no more eftir Melody Beattie eða Facing Codepence eftir Pia Mellody)

Að verða meðvirkur er sá sjúkdómur sem aðstandendur fá. Hann breytir lífi og persónuleika þess sem fyrir honum verður. Sjúkdómur aðstandenda er meðferðarhæfur, það er, menn eru sendir í meðferð við þessum sjúkdómi á meðferðarstofnum rétt eins og drykkjumenn. Sjúkdómur aðstandenda er að því leiti verri en sjúkdómur drykkjumannanna sjálfra að honum fylgir sterkari afneitun og það verður því erfiðara fyrir aðstandandann að  sjá að það sé nokkuð að hjá honum.

Hér á landi hefur um nokkuð langt skeið verið stundaður skefjalaus áróður gegn óbeinum reykingum, og mönnum hefur einnig verið hjálpað til að hætta að reykja í meira mæli og á mun áhrifameiri hátt en áður, og er það bara góðra gjalda vert. Hins vegar hefur á sama tíma almennt aðgengi fólks að áfengi í landinu verið aukið og bætt. Útsölustöðum hefur fjölgað og fjölgar enn, og opnunartími þeirra hefur verið lengdur, börum og veitingahúsum hefur fjölgað og opnunartími þeirra hefur líka verið lengdur mikið, meira að segja er lagt til af 18 þingmönnum að aldurstakmörk til kaupa á áfengi verði færð til til “hagsbóta” fyrir neytandann. Niðurstaðan? Jú, áfengisneysla hefur aukist um 50% á 15 árum á sama tíma og neysla tóbaks hefur minnkað um 20%.  – Maður gat sagt sér sjálfur að svo hlyti að fara.

Umræðan í landinu er andsnúin tóbaki en hliðholl áfengi. Það er fínt að “fá sér í tána” eða að “kaupa sér söngvatn” eða jafnvel að fara á barinn og fá sér í glas. Menn tala um “guðaveigar” og það er fínt að hafa lítinn bar heima hjá sér, eða eiga nokkra flöskur í glerskáp inni í stofunni, ef það skyldu koma gestir. Það er ekki lengur fínt að fá sér smók eða að bjóða sígarettur og vindla frítt fyrir gesti í veislum eins og áður tíðkaðist.

ÁTVR heitir nú Vínbúðin. Tóbak er ekki nefnt í titlinum, þótt sala þess sé stór hluti af rekstrartekjunum. Bæklingur er gefinn út af Vínbúðinni um þær víntegundir sem hún selur en enginn bæklingur um tóbak. Tóbak má ekki sjást í hillum verslana og ekki heldur á börum og veitingahúsum, en bjór og vín má sjást að vild á veitingahúsum og börum.

Sá sem talar illa um áfengi og neyslu þess er álitinn vera haldinn ofstæki, en ef hann talar illa um tóbak eða neyslu þess eru menn honum sammála. Tóbak er ógeðslegt, sóðalegt og stórhættulegt þeim sem reykir og hinum sem umgangast reykingamanninn. Áfengi er gott í hófi og gleður mannsins hjarta. Áfengi er líka bragðgott og því upplagt að fá sér smávegis vín með mat og líka til að bjóða makanum með sér á rómantískri rökkurstund við kertaljós. - Nóg er af tilefnunum.

Samkvæmt Þórarni Tyrfingssyni yfirlækni á Vogi er áfengi skaðlegasta og sterkasta eiturlyfið sem til er. Það er skaðlegra en öll hin, hass, kókaín, amphetamín og hvað þau nú heita. Það virkar á svo marga þætti í líkama og sál og niðurbrotsáhrif þess eru töluvert meiri en annarra eiturlyfja. Það virkar líka á kynlífið eins og reyndar tóbak, og kynlíf drykkjumanna er oft hrein hörmung. Samt er það löglegt eiturlyf og fíkniefni.

Fíknin í áfengi er ekki sterk hins vegar og hinn líkamlega sókn í þetta fíkniefni er tiltölulega fljót að hverfa.

Tóbak er líka mjög skaðlegt fyrir líkamann. Fíknin í tóbak er afar sterk og sambærileg við fíkn í kókaín ef menn neyta þess.

Í samantekt má segja að það er sé erfitt fyrir menn að hætta að reykja, en ekki eins erfitt að hætta að drekka. Tóbak er mjög skaðlegt og drepur menn oft á 20 -30 árum. Óbeinar reykingar eru líka skaðlegar og geta valdið sjúkdómum og dauða hjá þeim sem fyrir þeim verða í langan tíma á sama hátt og hjá þeim sem reykja.

Áfengi er skaðlegt eiturlyf, sem brýtur menn niður bæði andlega, líkamlega og félagslega. Það breytir persónuleikanum og deyfir siðferðisvitundina. Dropinn holar bergið, svo lítil áfengisneysla veldur litlum skaða en meiri áfengisneysla veldur meiri skaða. Það tekur mislangan tíma fyrir áfengið að vinna á þeim sem neytir þess í óhófi, kannski ekki meira en 3 ár og kannski líka 30 ár, það fer eftir einstaklingnum og aðstæðum. Það er líka mjög erfitt að segja hvenær áfengis er neytt í hófi og hvenær óhófið tekur við. Oft eykst neyslan með aldrinum og  lokastig ofneyslu áfengis er jafnan dauði eða vist á geðsjúkrahúsi eða í fangelsi.

Þeir sem eru langtímum saman samvistum við drykkjumenn eru nefndir aðstandendur og þeir verða líka sjúkir. Sjúkdómur þeirra er ekki eins viðurkenndur af kerfinu og sjúkdómur drykkjumanna, þótt hann sé alveg jafn raunverulegur. Oft verða aðstandendur mjög alvarlega sjúkir. Neyslan breytir persónuleika þeirra og allt sem heitir heilbrigt líferni og heilbrigð skynsemi fer úr skorðum. Drykkjumaðurinn fer í gegnum líf þess eins og hvirfilvinur og umturnar öllu sem fyrir verður.

Áfengið er fjölskyldueitur og þegar einhver á heimilinu neytir þess í einhverju óhófi fara vandamálin strax að segja til sín. Það þykir sjálfsagt að merkja sígarettupakka og annað tóbak með stórum borðum með áletrunum eins og “Tóbak drepur” eða “Neysla tóbaks er mjög skaðleg fyrir hjarta og æðakerfið” en það dettur engum í hug að merkja vínflöskur með áletrum eins og “Fjölskyldueitur eða “Óhófleg víndrykkja gerir þig að skítakarakter” Þó er áfengisneysla einmitt mun hættulegri en tóbaksneysla og full ástæða til að vara við henni.

Á meðferðarstöðvum er eðlilega lögð áhersla á að fá drykkjumennina til að hætta að nota áfengi. Þeim var að minnsta kosti til skamms tíma sagt að þeir gætu tekið á reykingum sínum seinna, eftir 2 ár eða svo ef þeir vildu. Tóbaksneyslan er sem sé ekki að drepa þá. Ef drykkjumaður er spurður hvort honum finnist áfengi eða tóbak hættulegra eiturlyf er svarið alltaf að áfengið sé mun hættulegra. - Hann ætti að vita það.

Þeir sem verða fyrir óbeinni áfengisneyslu, aðstandendur, geta fengið nokkra bót meina sinna með því að fara í Al-Anon eða “Samtök aðstandenda þar sem nafnleynd ríkir.” Samtökin byggja upp á sama sporakerfi og AA samtökin og aðstandendur fara í gegnum sömu vinnu og alkóhólistar eða drykkjumenn. Aðstandendur fá að sjá í Al-Anon hvernig hegðunarmunstur þeirra hefur breyst vegna samvistanna við drykkjumanninn og líf þeirra hefur tekið stakkaskiptum til hins verra. Því miður sjá samt margir aðstandendur aldrei að það sé neitt að hjá þeim og fara því áfram í gegnum lífið kolruglaðir og fársjúkir. Þeir fá engan bata með því einungis að hætta að umgangast alkóhólistann sinn, það verður meira að koma til, þeir þurfa að vinna í þessum persónuleikabreytingum sínum. Oft enda þeir sem ná góðum bata í gegnum Al-Anon með því að finna út þetta: “Ef eitthvað er þá held ég bara að ég hafi verið sjúkari en alkóhólistinn minn.”

Niðurstaðan? Jú, óbein áfengisneysla er stórhættuleg og ekki minni ástæða til að vara við henni en óbeinum reykingum. Enginn ætti að leggja líf sitt og framtíðarhamingju í hættu með því að umgangast drykkjumann um lengri tíma, til dæmis inni á heimili eða á vinnustað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Reynir Hugason
Reynir Hugason
Ég heiti Reynir Hugason og bý á Selfossi. Hress og góður karl með skoðanir.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 11329

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband